Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 10. 2013 | 14:30

Eimskipsmótaröðin (2): Viðtal við Harald Franklin sigurvegara Securitas mótsins

Haraldur Franklín Magnús, GR, vann glæsilegan sigur á 2. móti Eimskipsmótaraðarinnar, Securitas-mótinu úti í Eyjum nú um helgina.

Haraldur Franklín var samtals á 1 undir pari,  209 höggum (67 70 72).

Golf 1 tók stutt viðtal við sigurvegarann:

Golf 1: Haraldur, innilega til hamingju með sigurinn úti í Eyjum, er þetta fyrsti þinn sigurinn þar og ertu vel kunnugur Vestmannaeyjavelli?

Haraldur Franklín:  Já, þetta er fyrsti sigurinn. Ég hef spilað mikið undanfarið þar, en spilaði helling úti í Eyjum í unglingamótum og svo í svona 5 karlamótum.

Golf 1: Áttu þér einhverja uppáhaldsbraut á Vestmannaeyjavelli?

Haraldur Franklín:  Mér finnst náttúrlega, 2. brautin rosalega skemmtileg. Þó hún sé stutt er hún tricky – ég var á 3 yfir á henni en hún getur refsað grimmt. Svo er gaman að 4. braut og 17. líka þó hún sé ósanngjörn í vindinum.  Það voru nokkrar holur með léleg grín – ef grínin eru góð, þá líkar mér bara við allar holur á vellinum.

Golf 1: Hvað var það sem gekk upp hjá þér þannig að þú vannst?

Haraldur Franklín:  Ég var að dræva fínt sem er mikilvægt í Eyjum. Svo er það bara ég, mér fannst ég þurfa að pútta betur, en það var ekkert að klikka. Það er kannski það sem gekk best, að ég var ekkert að koma mér í mikil vandræði – ég spilaði öruggt. T.d. á 15. sló ég hægra megin, til að vera öruggur með par – holan býður upp á hátt skor ef etthvað klikkar.

Golf 1: Hvernig er að koma úr hitanum í Mississippi og þurfa að berjast áfram í rigningu og kulda í þessu móti hér?

Haraldur Franklín:   Ég var í regnjakka úti í Eyjum, sem gerði kraftaverk. Hér þarf bara vera í góðum klæðnaði og maður þarf bara að vera undirbúinn að berjast um pör, þegar veður er vont. Það er kannski svolítil breyting frá því úti, að þar var maður að slá hátt en hér verður maður að slá lágt.

Golf 1: Nú fréttist að þú ætlaðir að skipta um skóla úti – þú ert á förum frá Mississippi State, í hvaða skóla ertu að fara?

Haraldur Franklín: Ég er að fara í Louisiana Lafayette, en í þeim skóla voru meðal annars Ottó Sigurðsson, Úlfar Jónsson og Örn Ævar. Þjálfarinn  er einn besti vinur Örn Ævars.

Golf 1: Hvað ertu að læra úti?

Haraldur Franklín:  Ég ætlaði að læra eitthvað tengt tölvum, en það stangaðist á við golfæfingarnar þannig að ég skipti yfir í hagfræði 1. árið. Ég ætla að sjá til með hvort ég skipti aftur yfir í tölvurnar.

Golf 1:  Nú var besti hringurinn þinn á föstudaginn 3 undir pari, 67 högg en lokahringinn spilaðir þú á 72 höggum –  af hverju stafar munurinn á skorinu er það dagsformið, veðrið eða eitthvað annað?

Haraldur Franklín:  Það var m.a veðrið, klárlega.  En ég var eiginlega að spila lokahringinn betur en fyrsta daginn. Besta skorið 1. daginn var 5 undir pari en lokahringinn var það 71.

Golf 1: Ætlar þú að taka þátt í öllum mótum Eimskipsmótaraðarinnar?

Haraldur Franklín: Ég veit ekki hvort ég næ að vera með í Íslandsmótinu í holukeppni. Við Axel Bóasson og Guðmundur Ágúst erum að fara til Skotlands eftir 1 1/2 viku að keppa á  British Amateur, sem er eitt sterkasta áhugamannamótið. Það verður gaman að sjá hvar ég stend meðal annarra kylfinga í Evrópu. Svo tek ég þátt í Íslandsmótinu í höggleik, sem mér finnst aðalmótið og svo veit ég ekki hverju ég næ, en verð með í sveitakeppninni.

Golf 1: Hver eru markmiðin fyrir sumarið?

Haraldur Franklín: Að toppa í Íslandsmótinu, Það er aðalmarkmiðið.