Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 26. 2013 | 07:00

Draumur Day um að verða nr. 1

Undanfarin ár hafa verið erfið fyrir Jason Day og jafnvel á þessu ári sleppur hann ekki við áföllin þó að þessu sinni séu þau utan vallar, en hann missti nú um daginn 8 ættingja sína í fellibyl á Filipseyjum, en þaðan er móðir hans.

Á honum hefir lítið borið síðan að hann sigraði á Byron Nelson Championship árið 2010 og varð síðan í 2. sæti á ýmsum stórmótum s.s. Masters 2011 og Opna bandaríska.

Þeim mun meiri var gleði Day að sigra nú um helgina í ISPS Handa heimsmótinu, í Melbourne, Ástralíu, en hann sigraði bæði í einstaklings- og liðakeppninni…. og ekki skemmdi fyrir að sigurinn vannst á heimavelli.

Við þennan sigur fór Day úr 18. sætinu á heimslistanum í 11. sætið og hann gerir sér vonir um að verða innan skamms aftur kominn meðal topp-10 í heiminum.

Sigurinn hefir vakið upp gamlan draum hjá Jason Day um að verða nr. 1 á heimsistanum, sbr. það sem hann sagði eftir sigurinn á heimsmótinu s.l. helgi: „Að verða nr. 1 hefir verið markmið mitt allt frá því ég tók fyrst upp kylfu.“ Og síðan bætti hann við: „Ég hef alltaf viljað verða nr. 1. Ég og  þjálfari minn til langs tíma og kylfusveinn, Colin [Swatton] settum okkur markmið þegar við hittumst fyrst, þegar ég var 12-13 ára um að við vildum verða nr. 1″

„Markmiðið var að verða nr. 1 við 22 ára aldurinn en við enduðum með því að verða nr. 7 þegar ég var 23, þannig að það vantaði aðeins á, en það er enn í huga mér að ná að verða nr. 1.“