Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 23. 2018 | 07:00

Curtis Strange óánægður með Rahm og Landry

Jon Rahm og Andrew Landry spiluðu frábært golf á CareerBuilder Challenge mótinu frá teig að flöt í fyrradag, sunnudaginn 21. janúar 2018.

Einn frægðarhallarkylfingur, Curtis Strange, var samt ekkert ánægður með hvernig þeir hegðuðu sér frá teig að flöt.

Curtis Strange

Í stað þess að fjalla um harðunninn sigur Rahm eða hversu mikið Landry hafði fyrir öllu þá kaus tvöfaldi risamótssigurvegarinn (Strange, sem sigraði á Opna bandaríska tvö ár í röð þ.e. 1988 og 1989) að einblína á hversu mikið Landry og Rahm kjöftuðu við hvorn annan í bráðabananum.

Strange líkar ekkert orðagjálfur í harðri keppni.

Strange var þekktur fyrir að vera mikil keppnismaður (og það hlýtur hann líka að hafa verið því hver annar sigrar í tveimur risamótum og það Opna bandaríska tvö ár í röð?).

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldri kynslóð kylfinga tjáir sig um hversu yfirum vingjarnlegir keppendur nýju kynslóðar kylfinga eru við hver við aðra.

Strange útskýrði afstöðu sína svona þegar einhver spurði hann þeirra alvarlegu spurningar hvað það væri sem ylli pirringi hans? Væri  þetta vegna þess að þá virtist vera minni samkeppni þegar þeir töluðu saman eða að það hefði neikvæð áhrif á einbeitni þeirra?:

Svar Strange:  „Það sem er að er að maður vill ekki að andstæðingurinn sé afslappaður eða hafi það þægilegt. Mikil pressa. Gott.“

Annar tvítaði og spurði hvort hann (þ.e. Strange) og Nick Faldo hefðu ekki talað saman á vellinum í gamladaga?

Svar Strange: „0 orð“

Mórall greinarinnar: Ef þið lendið einhvern tímann í bráðabana við Curtis Strange og hann talar ekki við ykkur – ekki taka því persónulega!