Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 14. 2013 | 02:00

Cabrera og Snedeker í forystu fyrir lokahringinn á The Masters

Það eru Argentínumaðurinn Angel Cabrera og Bandaríkjamaðurinn Brandt Snedeker, sem eru í forystu á the Masters 2013. Báðir hafa leikið á samtals 7 undir pari, 209 höggum; Cabrera (71 69 69) og Snedeker (70 70 69).

Aðeins 1 höggi á eftir er Ástralinn Adam Scott, sem er að reyna að vinna fyrsta risamótstitil sinn. Scott hefir leikið á samtals 6 undir pari, 210 höggum (69 72 69).

Fjórða sætinu deila landar Scott, enn öðru höggi á eftir en það eru þeir Marc Leishman og forystumaður gærdagsins Jason Day, báðir á 5 undir pari, samtals, hvor.

Í 6. sæti er Bandaríkjamaðurinn og núverandi heimsmeistari í holukeppni Matt Kuchar á samtals 4 undir pari og 7. sætinu deila síðan Tiger og Tim Clark á samtals 3 undir pari, hvor.

Nr. 2 á heimslistanum, Rory McIlroy, átti afleitan 3. hring upp á 79 högg, hring þar sem hann fékk m.a. þrefaldan skolla og  skramba (á 11. og 15. braut). Hann deilir 44. sætinu.

Sá sem átti stjörnudag var Daninn Thorbjörn Olesen, sem rétt komst í gegnum niðurskurð í fyrradag á 10 högga undanþágunni.  Hann lék 3. hring á 4 undir pari, fór upp um 37 sæti og er nú T-18. Á 3. hring fékk hann m.a. örn á 13. braut og 6 fugla, en því miður líka 4 skolla, en engu að síður frábær dagur hjá Olesen!!!

Hver stendur uppi sem sigurvegari The Masters 2013 er ómögulegt að segja. Tiger þarf að vinna upp 4 högg eins og staðan er núna og allt þarf að ganga upp hjá honum og/eða fara á verri veg hjá hinum (eða sambland af þessu báðu) eigi hann að hampa 15. risamótstitli sínum í kvöld!

Verður það Adam Scott (já eða þá Jason Day eða Marc Leishman) sem rjúfa álögin sem virðast hvíla á áströlskum kylfingum á the Masters, en Ástralar hafa aldrei unnið í mótinu? Sigri Scott verður það jafnframt fyrsti risamótssigur hans og myndi bæta fyrir ýmislegt sem gerðist á Opna breska s.l. sumar.

Tekst forystumönnunum að halda forystunni? Öllum spurningum verður svarað á gríðarspennandi Masterslokahring í kvöld!

Til þess að sjá stöðuna í heild fyrir lokahring The Masters SMELLIÐ HÉR: