Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 20. 2012 | 18:00

Butler National GC meinar konum að gerast félagsmenn eftir atkvæðagreiðslu

Þrátt fyrir framfarirnar á Augusta National í þá átt að heimila konum félagsaðild, þá er a.m.k. enn einn virðulegur golfklúbbur, sem enn heldur dyrum sínum luktum fyrir kvenkyns félagsmönnum: Butler National GC.

Skv. Chicago Tribune var haldin atkvæðagreiðsla í Butler National Golf Club – fyrsta sinnar tegundar í klúbbnum – og það samþykkt með miklum meirihluta að engum konum skyldi hleypt sem félögum í klúbbinn.

Það þurfti 75% atkvæða til þess að breyta ákvæðum í klúbbreglum um að konum yrði leyfð félagsaðild.  Aðeins 40% félagsmanna vildi heimila konum aðild.

Butler National er í úthverfi Chicago og hefir lengi þótt líklegur til að verða fyrir valinu sem mótsstaður U.S. Open eða BMW Championship.

Félögum í klúbbnum hefir farið fækkandi vegna þess að enginn vill fá á sig stimpil að vera tengdur kynjamismunun og þ.a.l. hefir ráðstöfunarfé klúbbsins minkað.

„Við erum í dauðaspíral“ sagði einn félagsmanna.

Golfvöllur Butler National er nr. 54 á lista  Golf Digest um 100 bestu golfvelli Bandaríkjanna þ.e. „America’s 100 Greatest Golf Courses.“ Butler National var gestgjafi Western Open á árunum 1974-1990. Eftir PGA Championship á Shoal Creek 1990, hafa bandaríska golfsambandið (ens.: U.S. Golf Association), PGA Tour og PGA of America krafist þess af mótsstöðum PGA að klúbbar séu ekki með mismunun í gangi og þ.a.l. var mótið flutt á hinn nærliggjandi Cog Hill golfvöll.