Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 23. 2016 | 13:00

Butch Harmon tilbúinn að segja Tiger álit sitt

Gúru allra golfkennara Butch Harmon segist tilbúinn að hjálpa Tiger Woods við „come-backið“ en hann hefir verið frá keppni að ná sér eftir bakuppskurði og er nú dottinn niður í 467. sætið á heimslistanum.

Butch Harmon segist vilja að Tiger enduruppgötvi gamla formið sitt og segir hluta ástæðu bakerfiðleika Tiger vera vegna of mikillar áreynslu við að lyfta lóðum í ræktinni og vegna of mikillar líkamsræktar.

Sveiflugúrúinn eins og Harmon er oft kallaður hjálpaði Tiger við að ná fyrsta risamótssigri sínum og síðan næstu 7, en síðan skyldu leiðir þeirra 2002 og þeir varla talast við núorðið.

Harmon sagði m.a.: „Ég hef ekki hugmynd um hvort hann kemur aftur – það er ekki nokkur leið að vita það því ég hef ekki talað við hann árum saman nema kastað á hann kveðju á æfingasvæðinu.

Myndi ég vilja taka hann aftur og vinna almennilega með honum? Ég hef fleiri leikmenn en ég get sinnt nú, þannig að það myndi aldrei gerast.“

Ef hann nokkru sinni myndi vilja álit mitt myndi ég meira en gjarnan vilja gefa honum það en ég held ekki að það gerist nokkru sinni.“

Harmon vinnur nú með kylfingum sem eru ofarlega á heimslistanum Dustin Johnson og Rickie Fowler.