Ragnheiður Jónsdóttir | október. 31. 2012 | 19:15

Bradley íhugar málaferli til að berjast gegn banni á bumbupútterum

Keegan Bradley er tilbúinn að berjast fyrir bumbupútteranum sínum (ens.: Belly Putter).

Búist er við að bandaríska golfsambandið USGA og R&A í St. Andrews muni á næstu mánuðum banna bumbupútterana, sem njóta sívaxandi vinsælda. Keegan Bradley, sigurvegari PGA Championship risamótsins 2011 sagðist að hann myndi hugsanlega fara í mál yrðu þeir bannaðir.

Bradley, sem var fyrsti kylfingurinn til þess að vinna risamótstitil með bumbupútteranum, segir að hann ætli að berjast gegn banninu.

„Ég ætla að gera það sem til þarf til þess að verja sjálfan mig og aðra kylfinga á Túrnum,“ sagði Bradley. „Ég lít á þetta (sem málsókn) fyrir okkur alla. Ég lít ekki svo mikið á þetta fyrir sjálfan mig. Mér finnst að það, að banna pútterana eftir það sem við höfum gert, sé ótrúlegt.“

Ernie Els var upphaflega á móti bumbupútteranum en eftir að hann eltist fór hann að nota slíka púttera og vann m.a. Opna breska með slíkum pútter s.l. sumar. Hann styður nú bumbupúttera-bræður sína. „Þeir eiga von á málsóknum,“ sagði Els og átti við USGA og R&A. „Þetta á eftir að verða í deiglunni nú. Ég hef verið á móti þeim (bumbupútterunum) en eftir að ég fór að nota þá sé ég að það þarf að æfa sig mikið með þeim til þess að fullkomna strokuna.“

Byggt á grein í Fox Sports