Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 14. 2012 | 06:30

Bandaríska háskólagolfið: Kristján Þór Einarsson og Andri Þór Björnsson léku best í liði Nicholls á The Grover Page Classic

Í gær lauk Grover Page Classic háskólamótinu, sem fram fór í Jackson Country Club, í Jackson, Tennessee, dagana 11.-13. mars 2012.  Þátttakendur voru 75 frá 12 háskólum m.a. frá Nicholls State, Íslendingaliðinu, sem í eru Kristján Þór Einarsson, GK, Andri Þór Björnsson, GR og Pétur Freyr Pétursson, GR.

Andri Þór Björnsson, GR, var á besta skori allra úr Nicholls State liðinu, 72 höggum fyrsta daginn.

Lið annarra háskóla sem þátt tóku í mótinu voru:  UT Martin Skyhawks sem voru gestgjafar, Bethel, Jackson State, John A. Logan, Lipscomb, Morehead State, Murray State, SIU, Tennessee State, Tennessee Tech og Union University.

Spilaður var æfingahringur á sunnudaginn (11. mars) og síðan voru tveir hringir spilaðir á mánudaginn og lokahringurinn í gær, eða alls 3 hringir í mótinu.

Kristján Þór Einarsson, GK, spilaði best í liði Nicholls State var á samtals 230 höggum (77 76 77) og deildi 27. sætinu í mótinu, ásamt öðrum.

Andri Þór Björnsson, GR, var næstbestur í liði Nicholls State á samtals 231 höggi (72 81 78) og deildi 32. sætinu með öðrum. Hann átti besta hring í liði Nicholls 1. daginn þegar hann spilaði á pari  vallarins, 72 höggum.

Aðrir í liði Nicholls State voru þeir Florentino Molina (T-42); Werlein Prosperie (T-50) og Jess Daze (T-55). Pétur Freyr Pétursson, GR, spilaði ekki í mótinu.

Nicholls State varð í 8. sæti í mótinu af þeim háskólaliðum, sem þátt tóku.

Til þess að sjá stöðuna að öðru leyti á The Grover Page Classic háskólamótinu í Tennessee smellið HÉR: