Ragnheiður Jónsdóttir | september. 7. 2013 | 20:00

Bakslag hjá Birgi Leif

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, átti hring vonbrigða á Pléneuf í dag, þar sem hann fékk m.a. slæman skramba, sem eyðilagði annars ágætis hring hans.

Skrambinn kom á par-4 12. brautina, en þar var Birgir Leifur með 9 högg á skorkortinu en hélt jöfnu á hinum 17 holunum.

Niðurstaðan því bakslag upp á 5 yfir par í dag.

Samtals er Birgir Leifur búinn að spila á 3 yfir pari (65, 73 75)

Birgir er ekki sá eini þar sem mikill munur er á skori milli daga. Hér mætti t.a.m. benda á bróður Carly Booth, Wallace, frá Skotlandi sem spilaði á 67 höggum fyrsta daginn en var á 75 höggum, líkt og Birgir Leifur í  dag.  Englendingurinn Nick Dougherty var jafnvel með 11 högga sveiflu milli hringja – átti frábæran hring upp á 64 högg í gær en var á 75 höggum líkt og Birgir Leifur í dag.

Englendingurinn Robert Dinwiddie, sem byrjaði illa á 74 höggum er nú kominn í 5. sætið eftir tvo glæsihringi upp á 66 högg. Þannig að ekki er öll nótt úti enn fyrir Birgi Leif; eitt gott skor á morgun getur aftur fleytt honum upp skortöfluna, en hann er sem stendur í 43. sæti.

Allir sem hafa minnsta vit á golfi vita að það gengur allt eins og í draumi einn daginn úti á velli og þann næsta er maður í djúpum dal vonbrigða – sama hvort viðkomandi er besti kylfingur heims eða á einhverju öðru kunnáttustigi og  hvort heldur verið er að keppa á einhverri mótaröðinni eða bara að leika sér í golfi.  Það er það sem gerir golf að því sem það er: þessari frústrerandi íþróttagrein sem er þó svo gefandi!

Ítalinn Andrea Pavan er búinn að spila eins og sá sem valdið hefir, með alla hringi undir 70 (64 65 68) og er sem fyrr í 1. sæti, á samtals 13 undir pari, en 6 höggum munar á honum og næsta manni, Norður-Íranum Alan Dunbar.

Golf 1 óskar Birgi Leif góðs gengis á morgun!!!

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag á  Open Blue Green Côtes d’Armor Bretagne mótinu  SMELLIÐ HÉR: