Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 12. 2018 | 18:00

Axel og Birgir Leifur tóku silfrið á EM í liðakeppni atvinnukylfinga

Birgir Leifur Hafþórsson og Íslandsmeistarinn í höggleik 2018 Axel Bóasson enduðu í öðru sæti á EM í liðakeppni atvinnukylfinga. Þeir töpuðu naumlega 2/0 í úrslitaleiknum gegn Spánverjunum Pedro Oriol og Scott Fernandez. Úrslitaleikurinn var spennandi og náðu íslensku leikmennirnir að búa til hörkuspennu á lokakaflanum þrátt fyrir að vera 3 holur niður þegar þrjár holur voru eftir.

Birgir Leifur og Axel fengu um 6,4 milljónir kr. hvor í sinn hlut í verðlaunafé en Evrópumeistararnir fengu um 12,8 milljónir kr. hvor í sinn hlut.

Birgir og Axel lögðu spænskt lið 2/1 í morgun í undanúrslitum.

Birgir og Axel lönduðu þar með öðrum verðlaunum sínum á þessu móti. Í gær fögnuðu þeir Evrópumeistaratitlinum í keppni blandaðra liða með Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Valdísi Þóru Jónsdóttur.

Það var að miklu að keppa á EM því sigurliðið skipti á milli sín rúmlega 25,6 milljónum kr.

Verðlaunaféð í liðakeppni karla á EM atvinnukylfinga.
1. sæti = 100.000 Evrur á leikmann = 12,8 milljónir kr.
2. sæti = 50.000 Evrur á leikmann = 6,4 milljónir kr.
3. sæti = 30.000 Evrur á leikmann = 3,85 milljónir kr.
4. sæti = 15.000 Evrur á leikmann = 1,92 milljónir kr.

Evrópumótið í liðakeppni atvinnukylfinga fór fram á Gleneagles vellinum í Skotlandi dagana 8.-12. ágúst og lauk í dag.

Alls voru 16 þjóðir sem tóku þátt og var hvert lið skipað tveimur leikmönnum.

Axel Bóasson (GK) og Birgir Leifur Hafþórsson (GKG) voru saman í liði. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) voru saman í liði. Og í lokaumferðinni voru liðin skipuð einum karli og einni konu.

Birgir Leifur og Axel unnu allar þrjár viðureignir sínar og léku þeir í undanúrslitum mótsins. Þeir léku um laust sæti í undanúrslitum mótsins gegn Noregi í lokaumferðinni og þar höfðu þeir betur. Birgir og Axel lögðu Belgíu og Ítalíu í fyrstu tveimur umferðunum.

Valdís Þóra og Ólafía Þórunn gerðu jafntefli gegn Austurríki í lokaumferðinn og stóðu uppi með tvö jafntefli og einn tapleik.

Þær fengu þrjá fugla í röð á síðustu þremur holunum í viðureign þeirra gegn Finnlandi í 2. umferð. Íslensku atvinnukylfingarnir náðu að jafna við Finnland og lönduðu 1/2 vinningi. Valdís og Ólafía töpuðu fyrsta leiknum í riðlakeppninni.

Sjá nánar um mótið með því að SMELLA HÉR: 

Texti og mynd: GSÍ