Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 26. 2023 | 18:30

Arnar Már heiðraður með 5 stjörnum

Arnar Már Ólafsson, golfkennari var heiðraður með 5 star professional award við viðhöfn hjá CPG.

CPG er stytting á Confederation Professional Golf, sem er arftaki samtaka sem áður hétu PGA of Europe.

Þessi verðlaun eru aðeins veitt yfirburða og framúrskarandi golfkennurum og atvinnukylfingum.

Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1992 og er Arnar Már fyrsti íslenski golfkennarinn, sem hlýtur viðurkenninguna úr hendi CPG.

Arnar Már útskrifaðist úr sænska PGA golfkennaraskólanum 1991 og starfaði í 8 ár sem afreksþjálfari hjá Golfklúbbnum Keili. Hann starfaði síðan í Þýskalandi hjá Gut Düneburg Golf Club frá 1996 til 2004. Þaðan fór hann til Berlin Wannsee Golf-Landclub, sem er elsti og einn merkasti golfklúbbur Þýskalands, en flutti heim 2006 og starfaði sem unglingalandsliðsþjálfari hjá Golfsambandinu, jafnframt því sem hann stofnaði og kenndi við Golfkennaraskóla PGA á Íslandi. Seinustu 10 ár hefur hann starfað sem yfirþjálfari hjá Berlin Wannsee Golf Landclub.

Undanfarin ár hefur hann þjálfað afrekskylfinga í fremstu röð, t.a.m. Phillip Mejow og Guðmund Ágúst Kristjánsson sem spila báðir á Evróputúrnum (ens.European Tour)  og evrópsku Áskorendamótaröinni (ens. Challenge Tour) og landsliðsmennina Bjarka Pétursson, og Andra Þór Björnsson.

Arnar fékk gullmerki GSÍ árið 2012 fyrir framlag sitt til golfíþróttarinnar á Íslandi, ekki síst fyrir að tryggja PGA golfkennaraskólanum fulla viðurkenningu innan evrópsku PGA samtakanna.

Arnar Már er kvæntur Helgu Lárusdóttur og eiga þau tvær dætur, þær Sólrúnu og Ástrós.

Golf 1 óskar Arnari Má innilega til hamingju með viðurkenninguna!