Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 7. 2019 | 19:00

Árið gert upp – Helstu innlendu golffréttir júní 2018

Atvinnukylfingarnir  Haraldur Franklín Magnús GR og Ólafur Björn Loftsson, GKG, komust í gegnum niðurskurð á Jyske bank PGA Championship, en  Andri Þór Björnsson, GR, sem einnig tók þátt í mótinu, náði ekki niðurskurði, í þessu móti sem er hluti af Nordic Golf League mótaröðinni og fór fram í Silkeborg Ry Golfklub, í Danmörku, dagana 30. maí – 1. júní 2018. Haraldur Franklín lauk keppni á besta skorinu af Íslendingunum þremur; lék samtals á 5 undir pari, 211 höggum (66 72 73) og endaði T-16. Ólafur Björnt lauk keppni T-34; lék á samtals 1 undir pari, 215 höggum (66 75 74).

Ísfélag Vestmannaeyja stóð fyrir stórglæsilegu sjómannamóti föstudaginn 1. júní 2018. Keppnin var flokkaskipt – keppt bæði í karla- og kvennaflokki í tveimur forgjafarflokkum og sérstökum sjómannaflokki.Í sjómannaflokkinn máttu skrá sig núverandi og fyrverandi sjómenn, útgerðarmenn og starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækja. Þeir sem höfðu sjómennsku sem aðalstarf voru sjálfkrafa skráðir í Sjómannaflokkinn. Þátttakendur í mótinu voru 100 þar af 14 kvenkylfingar. Úrslit urðu þau að í forgjafarflokki 0-12,4 hjá konunum sigraði Þórunn Anna Haraldsdóttir úr GA en hjá körlunum Sigurjón Pálsson, GV. Þórunn Anna var með 21 punkt en Sigurjón 39 punkta. Í forgjafarflokki 12,5-25 hjá konunum sigraði heimakonan Hrönn Harðardóttir, GV – var með 34 punkta, en hjá körlunum í forgjafarflokki 12,5-24,4 sigraði Andri Steinn Sigurjónsson á 39 punktum. Í Sjómannaflokknum sigraði Kristgeir Orri Grétarsson á 38 punktum.

Guðrún Brá og Berglind

Hvorki Guðrún Brá BjörgvinsdóttirValdís Þóra Jónsdóttir náðu niðurskurði á LET mótinu Jabra Ladies Open, sem fram fór í Evían, Frakklandi dagana 31. maí – 2. júní 2018.

Axel Bóasson komst ekki í gegnum niðurskurð móti vikunnar á Áskorendamótaröð Evrópu: Swiss Challenge presented by Association Suisse de Golf Sempachersee, sem fram fór dagana 31. maí – 3. júní 2018.

Á 2. móti Íslandsbankamótaraðarinnar, sem fram fór í Korpunni dagana 1.-3. júní 2018 sigraði Jóhannes Sturluson, úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar í strákaflokki 14 ára og yngri. María Eir Guðjónsdóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem sigraði í stelpuflokki. Í flokki 15-16 ára drengja sigraði Dagbjartur Sigurbrandsson (GR). Í flokki 15-16 ára telpna sigraði Hulda Clara Gestsdóttir, GKG. Eldri flokkarnir (fl. 19-21 árs og fl. 17-18 ára) léku 3 hringi. Í flokki 17-18 ára pilta sigraði Sigurður Bjarki Blumenstein, GR. Í flokki 17-18 ára stúlkna sigraði Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss og loks sigraði Birgir Björn Magnússon, GK í flokki 19-21 árs.

Þorsteinn Geirharðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja (GS) var á besta skorinu 71 höggi á Sjóaranum síkáta í Grindavík, sem fram fór 2. júní 2018. Hann hlaut í verðlaun 27 kg sjófrystan fisk og húðvörur frá Bláa Lóninu, verðmæti vinninga um 50.000 kr.Best í punktakeppninni stóð sig heimakonan Þuríður Halldórsdóttir, GG, en hún fékk 37 glæispunkta á Húsatóftavelli .

Annað mót Áskorendamótaraðarinnar fór fram laugardaginn 2. júní s.l. á Korpunni. Í flokki 12 ára hnokka voru spilaðar 9 holur og sigraði Jón Gunnar Kanishka Shiransson, úr Golfklúbbi Ísafjarðar (GÍ). Í flokki 12 ára hnáta voru líka spilaðar 9 holur og sigraði Elísabet Ólafsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur (GR). Í flokki 10 ára hnokka voru spilaðar 9 holur og sigraði Kári Siguringason, úr Golfklúbbi Suðurnesja (GS). Í flokki 10 ára hnáta voru spilaðar 9 holur og sigraði Pamela Ósk Hjaltadóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur (GR).

Eldri flokkarnir á Áskorendamótaröðinni, þ.e. 14 ára og yngri og 15-18 ára léku 18 holur á Korpunni 2. júní 2018 og var lykkjan „Landið“ spiluð. Þátttakendur í flokki 14 ára og yngri stelpna voru 8. Í stelpuflokki sigraði Birna Rut Snorradóttir úr Golfklúbbi Akureyrar (GA). Þátttakendur í flokki 14 ára og yngri stráka voru 18. Í strákaflokki sigraði Gunnar Kári Bragason úr Golfklúbbi Selfoss (GOS). Í flokki 15-18 ára stúlkna var Vala Guðrún Dolan Jónsdóttir, úr Golfklúbbi Selfoss eini keppandinn. Hún tók því gullið á 107 höggum. Í flokki 15-18 ára pilta var jafnt með tveimur GK-ingum Sævari Atla Veigssyni og Atla Fannari Johansen, en báðir spiluðu Korpuna á 96 glæsihöggum!!!

Dagana 2.-4. júní 2018 kepptu 3 kylfingar úr GK á East of Ireland Amateur Open meistaramótinu. Rúnar Arnórsson náði frábærum árangri og lék á -8 undir pari. Hann lék hringina fjóra á (70-70-71-69). Rúnar endaði í 9. sæti en leiknar voru 36 holur á lokahringnum. Hinir keppendurnir úr GK, Henning Darri Þórðarson og Vikar Jónasson komust ekki í gegnum niðurskurð.

Þann 3. júní 2018 hlaut Eyþór K. Einarsson, GKG, albatross í móti Golfklúbbs Borgarstarfsmanna á Þorláksvelli, en Eyþór þurfti aðeins 2 högg á par-5 6. braut Þorláksvallar!

Þann 6. júní 2018 var frétt á Golf 1 þess efnis að Guðrún Nolan hefði sigrað í U15 Sussex Girls Championships með skor upp á frábær 77 högg!!! Mótið fór fram á Hollingbury Park golfvellinum, í Brighton, Englandi þ.e. á heimavelli Guðrúnar.

Guðrún Nolan

Dagana 7.-9. júní 2018 kepptu Berglind Björnsdóttir, GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir á Viaplay Ladies Finnish Open. Mótið fór fram á Messilä Golf svæðinu, sem er í Hollola, Finnlandi. Guðrún Brá lauk keppni T-25 en Berglind komst ekki í gegnum niðurskurð. Guðrún Brá fékk sinn 1. ás í þessu móti en hann kom á par-3 15 holu vallarins, sem er 202 yardar eða 185 metrar.

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK tók þátt í KPMG Trophy, móti á Áskorendamótaröð Evrópu, sem fram fór 7.-10. júní 2018. Spilað var á L´Empereur GC&C, í Ways, Belgíu. Axel komst ekki í gegnum niðurskurð.

Gísli Sveinbergsson, GK var sá eini af 3 íslenskum keppendum þremur, sem náði niðurskurði á St. Andrews Links Trophy, sem fram fór í vöggu golfsins dagana 8.-10. júní 2018. Hann lauk keppni T-34.

Atvinnukylfingarnir og GR-ingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús tóku þátt í PGA Championship hosted by Ingelsta Kalkon, á velli Österlens GK í Simrishamn, Svíþjóð. Mótið var hlut af Nordic Golf League mótaröðinni og fór fram dagana 8.-10. júní 2018. Báðir luku keppni T-15.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Birgir Björn Magnússon, GK sigruðu á 4. móti Eimskips-mótaraðarinnar keppnistímabilið 2017-2018, Símamótinu, sem fram fór dagana 8.-10. júní 2018 á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.

Rebekka Th. Kristjánsdóttir úr Golfklúbbnum Glanna sigraði á Guinot Open kvennamótinu, sem Golfklúbbur Vestmannaeyja stóð fyrir 9. júní 2018.

Sörenstam í sveiflu í Mýrinni 10. júní 2018

Þann 10. júní 2018 fór fram hið árlega Stelpugolf á æfingasvæði GKG og sérstakur gestur var kvengolfgoðsögnin sænska Annika Sörenstam. Daginn eftir 11. júní 2018 hélt Annika sýnikennslu í Nesklúbbnum að viðstöddu fjölmenni. (Mynd í aðalmyndaglugga af Anniku tekinn á Nesinu 11. júní). Þar ræddi Annika m.a um það skipti sem hún spilaði á PGA Tour fyrst kvenkylfinga.

GR-ingarnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson luku keppni á Twelve Championship by Thisted Forsikring, sem er hluti af  Nordic Golf League mótaröðinni. Mótið fór fram dagana 13.-14. júní 2018 í Storådalens Golfklub, Holstebro í Mið-Jótlandi, Danmörku.

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL varð T-5 á AXA Czech Ladies Challenge 2018, móti á LET Access, sem fram fór dagana 14.-16. júní 2018.

Andri Steinn Sigurjónsson, GV og Bjarki Ómarsson, GV sigruðu á Böddabita mótinu, á Vestmannaeyjavelli, sem fram fór 17. júní 2018.

Minningarpúttmót Harðar Barðdal fór fram 18. júní 2018. Elín Fanney Ólafsdóttir varð púttmeistari í flokki fatlaðra en Kristinn Sörensen í flokki ófatlaðra.

Íslenska karlalandsliðið 70+ 2018

Íslenska landsliðið skipað körlum 70 ára og eldri náði góðum árangri á ESGA Masters Team Championship & Cup 2018. Mótið fór fram í Lissabon í Portúgal dagana 18.-21. júní. Liðið endaði í fimmta sæti en alls tóku 19 þjóðir þátt. Þetta er besti árangur sem íslenskt lið skipað leikmönnum 70 ára og eldri hefur náð í þessari keppni. Íslenska landsliðið skipuðu þeir: Axel Jóhann Ágústsson, Bjarni Jónsson, Gunnsteinn Skúlason, Óli Viðar Thorstensen, Þorsteinn Geirharðsson og Þórhallur Sigurðsson. Fararstjóri var Baldur Gíslason.

Aron Snær, Bjarki og Gísli Sveinbergs

Þrír íslenskir kylfingar tóku þátt á Opna breska áhugamannamótinu (British Amateur) sem fram fór á Royal Aberdeen Golf Club í Skotlandi: Gísli Sveinbergsson úr Keili, Bjarki Pétursson úr GB og Aron Snær Júlíusson úr GKG. Mótið fór fram dagnana 18.-23. júní 2018, en þegar var ljóst 19. júní að enginn 3 íslensku kylfinganna í mótinu hefði komist í gegnum niðurskurð.

Þrír íslenskir kylfingar, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús GR og Ólafur Björn Loftsson, GKG tóku þátt á Gamle Fredrikstad Open í Danmörku 19.-21. júní 2018 en mótið er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni. GuðmundurGR lauk keppni í 16. sæti en hinir tveir íslensku keppendurnir komust ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum 2. keppnisdegi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK lék frábært golf á Lavaux Ladies Championship 2018, sem var mót vikunnar á LET Access mótaröðinnni, dagana 20.-22. júní 2018 Guðrún Brá lék á samtals  2 yfir pari, 218 höggum (75 67 76) og landaði 19. sætinu.

Arctic Open fór fram 20.-21. júní 2018. Marsibil Sigurðardóttir sigraði í punktakeppninni með forgjöf, sigurvegarar í höggleik karla, kvenna og karla 55+ urðu: Ingi Steinar Ellertsson, Stefanía Kristín Valgeirsdóttir og Jón Þór Gunnarsson (55+).

Þann 20.-23. júní 2018 fór fram KPMG Women’s PGA Championship risamótið. Ólafía Þórunn „okkar” Kristinsdóttir tók þátt en komst ekki í gegnum niðurskurð. Aðeins munaði 1 höggi að hún kæmist í gegnum niðurskurð.

Þann 21. júní var GA með Demodag.

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, tók þátt í LET móti, Ladies European Thailand Championship. Mótið fór fram á Phoenix Gold Golf & CC í Thaílandi og stóð dagana 21.-24. júní 2018 og voru þátttakendur 126. Valdís Þóra lék á samtals 2 undir pari, 286 höggum (71 71 74 70). og lauk keppni T-19.

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK komst glæsilega í gegnum niðurskurð á móti vikunnar á Áskorendamótaröð Evrópu, SSE Scottish Hydro Challenge, sem fór fram í Aviemore, Skotlandi, dagana 21.-24. júní 2018.Axel lék á samtals 4 yfir pari, 288 höggum (75 69 69 75) og lauk keppni T-45

Þann 21.-24. júní 2018 var mót vikunnar á Evróputúrnum BMW International. Birgir Leifur „okkar” Hafþórsson tók þátt og lauk keppni einn í 71. sæti.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í Walmart NW Akransas Championship represented by P&G mótinu sem fram fór dagana 22.-24. júní 2018 í Rogers, Arkansas. en komst ekki í gegnum niðurskurð eftir 2 hringi upp á slétt par 142 högg (69  – 73). Aðeins munaði 2 höggum að hún næði niðurskurði.

Íslandsmeistaramótið í höggleik (Íslandsbankamótaröðin nr. 4) í unglingaflokkum fór fram á Hólmsvelli í Leiru, dagana 22.-24. júní 2018.Keppt var í 7 aldursflokkum af 8, en því miður voru engir þátttakendur í flokki 19-21 árs stúlkna. Íslandsmeistarar urðu eftirfarandi:
Í flokki 19-21 árs pilta: Jóhannes Guðmundsson, GR.
Í flokki 17-18 ára pilta: Ingvar Andri Magnússon, GKG.
Í flokki 17-18 ára stúlkna: Amanda Guðrún Bjarnadóttir, GHD.
Í flokki 15-16 ára drengja: Dagbjartur Sigurbrandsson, GR.
Í flokki 15-16 ára telpna: Hulda Clara Gestsdóttir, GKG.
Í flokki 14 ára og yngri stráka: Bjarni Þór Lúðvíksson, GR.
Í flokki 14 ára og yngri stelpna: Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR.

23. júní 2018, fór fram keppni í yngri flokkum á Áskorendamótaröð Íslandsbanka (Áskorendamótaröð nr. 3) Mótsstaður var Kálfatjarnarvöllur á Vatnsleysunni. Vegna veðurs spiluðu allir flokkarnir 9 holur. Sigurvegarar urðu eftirfarandi:
Hnátur 10 ára og yngri Pamela Ósk Hjaltadóttir, GR 52
Hnokkar 10 ára og yngri: Hjalti Kristján Hjaltason, GR 42
Hnokkar 12 ára og yngri:Jón Gunnar Kanishka Shiransson, GÍ 45
Hnátur 12 ára og yngri: Lilja Grétarsdóttir, GR 66
Eldri flokkarnir spiluðu 18 holur og urðu úrslit eftirfarandi:
Drengir 15-18 ára: Birkir Freyr Ólafsson, GV 72
Telpur 15-18 ára: Nína Kristín Gunnarsdóttir, GK 63
Strákar 14 ára og yngri: Dagur Óli Grétarsson, GK 46
Stelpur 14 ára og yngri: Sara Kristinsdóttir, GM 52

Afmælismót Steina Gísla fór fram á Garðavelli á Akranesi 24. júní 2018 til minningar um Sigurstein Davíð Gíslason eða „Steini Gísla“ sem fæddist 25. júní 1968 en Steini Gísla lést langt fyrir aldur fram þann 16. janúar 2012, aðeins 43 ára að aldri.

Aron Snær Júlíusson úr GKG, Bjarki Pétursson úr GB og Gísli Sveinbergsson úr GK voru á meðal 144 keppenda á Evrópumóti áhugamanna 27.-30. júní 2018. Mótið fór fram á Royal Hague Golf & Country Club, í Hollandi.Alls voru leiknar 72 holur á fjórum keppnisdögum og komust 60 efstu í gegnum niðurskurðinn að loknum þriðja keppnisdeginum. Aron Snær og Gísli komust ekki í gegnum niðurskurðinn. Það gerði hins vegar Bjarki og lék hann á samtals og landaði 21. sætinu!!! Glæsilegt hjá Bjarka!!! Lokaskor Bjarka var 1 undir pari, 287 högg (71 75 69 72).

Meistaramót Golfklúbbs Þorlákshafnar (GÞ) fór fram dagana 27.-30. júní 2018. Þátttakendur að þessu sinni voru 14, 12 karl- og 2 kvenkylfingar. Klúbbmeistarar GÞ 2018 urðu Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Gíslason.

Svala og Sigmundur Íslandsmeistarar 35+, 2018

Íslandsmót (Mid/Am) Icelandair +35 fór fram 28.-30. júní 2018 á Húsatóftavelli hjá Golfklúbbi Grindavíkur. Sigmundur Einar Másson úr GKG fagnaði sigri í karlaflokki og Svala Óskarsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni sigraði í kvennaflokki. Úrslitin í kvennaflokki réðust eftir þriggja holu umspil.
Íslandsmeistarar 35 ára og eldri í kvenna og karlaflokkum verða fulltrúar Íslands á alþjóðlegu MidAm móti árið 2019, uppfylli þeir keppnisskilmála mótsins.

Berglind Björnsdóttir, GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK tóku þátt í Belfius Ladies Open, sem var LET Access mót og fór fram 28.-30. júní 2018 en komust báðar ekki í gegnum niðurskurð.

Axel Bóasson, GK tók þátt í móti vikunnar á Áskorendamótaröð Evrópu, Made in Denmark Challenge.Mótið fór fram á Himmerland Golf & Spa Resort í Farsö, Danmörku, dagana 28. júni – 1. júlí 2018. Axel lék á samtals 9 yfir pari, 151 höggi (74 77) og komst því miður ekki í gegnum niðurskurð.

Rúnar Arnórsson, GK og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR.

Íslandsmótið í holukeppni, Origo-bikarinn, fór fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja, dagana 29. júní – 1. júlí 2018. Rúnar Arnórsson úr Keili Hafnarfrði sigraði í karlaflokki eftir 3/2 sigur gegn félaga sínum í Keili Birgi Birni Magnússyni. Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigraði í kvennaflokki eftir 2/1 sigur gegn Helgu Kristínu Einarsdóttur úr Keili.