Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 9. 2014 | 07:00

ALPG&LET: Woods sigraði!!!

Cheyenne Woods, frænka Tiger Woods, sigraði nú fyrr í dag í fyrsta móti sínu á Evróputmótaröð kvenna, Volvik RACV Ladies Masters mótinu í Ástralíu. Mótið fór fram á RACV Royal Pines Resort golfklúbbnum í Queensland.

Mótið telur jafnframt líka sem mót á ALPG þ.e. áströlsku LPGA, en mótið er samstarfsverkefni mótaraðanna. Reyndar er þetta það mót í áströlsku kvennagolfi, sem fram hefir farið hvað lengst.

Woods var liðsfélagi Ólafíu okkar Þórunnar Kristinsdóttur í Wake Forest.

Cheyenne lék hringina 4 á samtals 16 undir pari, 276 höggum (69 67 71 69) og átti 2 högg á Minjee Lee, sem varð í 2. sæti.

Þriðja sætinu deildu Camilla Lennarth frá Svíþjóð (sjá kynningu Golf 1 á henni með því að SMELLA HÉR:) og Stacy Lee Bregmann frá Suður-Afríku, sem var á höttunum eftir 1. sigri sínum á LET, líkt og Cheyenne.

Í 5. sætinu var enn annar Íslendingavinur, Solheim Cup stjarnan Caroline Hedwall, sem er mikil vinkona Eyglóar okkar Myrru Óskarsdóttur frá þeim tíma sem þær léku saman í háskólaliði Oklahoma State. Með Hedwall í 5. sætinu voru So Young Lee og Minsun Kim; báðar frá Suður-Kóreu, en allar léku þær á 9 undir pari, 283 höggum.

Áttunda sætinu deildu tveir kylfingar, báðar á samtals 8 undir pari hvor þ.e. þær Belen Mozo og Jessica Korda og í 10. sætinu voru 3 góðar allar á 7 undir pari, hver: Yani Tseng fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, Solheim Cup stjarnan Charley Hull og franska golfdrottningin Gwladys Nocera.

Af framangreindu sést að þetta var sterkt mót í kvennagolfinu og á Cheyenne eflaust eftir að skjótast upp Rolex-heimslistann fyrir vikið.

Til þess að sjá lokastöðuna á Volvik RACV Ladies Masters SMELLIÐ HÉR: