Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 20. 2012 | 11:00

ALPG: Hver er kylfingurinn Lindsey Wright?

Sigurvegari gærdagsins á ALPG, nánar tiltekið ISPS Handa NZ Women´s Open var ástralska stúlkan Lindsey Wright, sem hafði betur gegn heimastelpunni ungu, 14 ára, Lydiu Ko, bandarísku stúlkunni Alison Walshe, Carlota Ciganda frá Spáni, Mariajo Uribe frá Kólombíu og Haiji Kang frá Suður-Kóreu, en allar voru þær í forystu fyrir lokahringinn.

En hver er Lindsey Wright?

Lindsey Elizabeth Wright fæddist á gamlársdag 1979 í Tunbridge Wells, Kent á Englandi og er því 32 ára. Hún býr sem stendur bæði í Dallas, í Texas þar sem hún er nýbúin að kaupa sér hús  og Albury í Ástralíu. Lindsey hlaut fyrst keppnisrétt á LPGA 2004, fyrir keppnistímabilið 2005 og hefir keppt á þeirri mótaröð sem og ALPG síðan.

Lindsey byrjaði að spila golf 9 ára gömul og segir foreldra sína Len og Lindu sem og bræður sína Neil og James hafa haft mest áhrif á feril sinn. Meðal áhugamála hennar er að spila á gítar. Hún spilaði í bandaríska háskólagolfinu með Pepperdine University í Kaliforníu og varð m.a. í 2. sæti á NCAA Championship árið 2001. Hún útskrifaðist frá skólanum með gráðu í íþróttafræðum  (ens.: Sports Administration).

Á US Women´s Amateur 2002 keppti hún til úrslita og á heimsbikarsmótinu í Malasíu 2002 varð hún í 2. sæti sem og á British Ladies Amateur sama ár. Hún spilaði á Kraft Nabisco Championship risamótinu árið 2003 sem áhugamaður og var- T-57.

Lindsey Wright á Evían Masters.

Til annarra sigra Lindsey sem áhugamanns teljast m.a.:

 • 1998 Sigraði í liðakeppni Commonwealth Cup (AUS vs Commonwealth Teams)
 • 1998 Besti áhugamaðurinn á  Women’s Australian Open
 • 1998-1999 Hlaut AIS golfskólastyrkinn
 • 1998-1999 Fulltrúi Viktoríu ríkis í liðakeppni
 • 1999  Sigurvegari í liðakeppni Tasman Cup (AUS vz NZ)
 • 1999 Vann AIS Golf Coaches Award (veitt af golfþjálfurum fyrir besta árangur kylfings)
 • 2000-2003 Pepperdine University (Sports Administration Degree) 4 Time All-American
 • 2000 Var í liði Ástralíu í heimsbikarskeppninni í Þýskalandi:  Varð T6 í einstaklingskeppni
 • 2003 Varð í 2. sæti á NCAA Women’s Team Championship meðan hún var við nám í Pepperdine University

Atvinnumennskan

Í júní árið 2003 gerðist Lindsey Wright  atvinnumaður í golfi og keppti fyrst á Futures Tour, þar sem hún vann GE Futures Professional Golf Classic.  Hún varð í 54. sæti á lokastigi Q-school LPGA og hlaut takmarkaðan keppnisrétt á LPGA 2004. Árið 2004 var hún samt aðallega á Futures Tour þar sem hún vann m.a. Bank of Ann Arbor FUTURES Golf Classic og varð við það 2. á peningalista Futures og hlaut þar með kortið sitt á LPGA.

Árið 2005 var besti árangur hennar T-5 á Longs Drugs Challenges.

Árið 2006 var besti árangurinn T-6 á CN Canadian Women´s Open og náði lægsta skori ferilsins, 66 högg á Fields Open í Hawaii þar sem hún varð T-9 (þ.e. jöfn öðrum í 9. sæti).  Wright jafnaði lægsta skorið sitt á Mc Donald´s LPGA Championship þar sem hún varð í 4. sæti og eins varð hún í 5. sæti á Wegmans LPGA og HSBC Women´s World Match Play Championship.

Árið 2007 varð Lindsey í 4. sæti á McDonald LPGA Championship, T-5 á Wegmans LPGA og T-5 á HSBC Women´s World Match Play Championship – allt mót á LPGA. Í Ástralíu á ALPG var besti árangur hennar T-5 á MFS Women´s Australian Open.

Keppnistímabilið 2008 var besti árangur Lindsey á LPGA 3. sætið á Fields Open í Hawaii og á ALPG, T-8 á ANZ Ladies Masters.

Árið 2009 var besti árangur Lindsey á LPGA 2. sætið á McDonalds LPGA Championship risamótinu og á ALPG 4. sætið á ActewAGL Royal Canberra Ladies Classic.

Besti árangur keppnistímabilið 2010 á LPGA var T-5 á Navistar LPGA Classic.

Í fyrra, 2011, varð Lindsey í 76. sæti á peningalista LPGA. Eins og sést á framangreindu hefir Lindsey ekki verið tíður sigurvegari á mótum heldur verið meðal 5 og 10. efstu ansi oft í mótum, hvort heldur er á ALPG og LPGa.  Því er hún ekkert sérlega þekkt þó hún sé meðal bestu kylfinga.  Í augnablikinu er hún í X. sæti á Rolex-heimslista kvenkylfinga.

Lindsey byrjar keppnistímabilið 2012 vel með sigri á ALPG, þ.e ISPS Handa NZ Women´s Open, og gaman að kylfingur sem svo mörgum sinnum er búinn að vera í efstu sætunum á mótum skuli loks fá bragðið af sigri.

Lindsey Wright, sigurvegari á ISPS Handa NZ Women´s Open.

 

Sigrar á Futures:

Sigrar á ALPG:

 • 2004 Catalina Country Club Pro-Am
 • 2012  ISPS Handa NZ Women´s Open