Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 23. 2013 | 14:00

Alan Dunbar gerist atvinnumaður

Alan Dunbar, sigurvegari British Amateur, sem keppti á Augusta National á the Masters risamótinu mun keppa í fyrsta sinn sem atvinnumaður á móti nú í vikunni.

Hann fékk þátttökurétt á móti Áskorendamótaraðarinnar sem fram fer á golfvelli El Encin Golf Hotel í Alaca de Henares á Spáni.

Með því að gerast atvinnumaður verður hann af þátttökurétti sínum á Opna bandaríska risamótinu, sem fram fer í júní á Merion golfvellinum í Pennsylvaníu.  Dunbar er kominn með samning við ISM, sem eru m.a. umboðsaðilar Louis Oosthuizen, Darren Clarke, Charl Schwartzel og Lee Westwood. 

Gengið á Masters risamótinu voru Dunbar vonbrigði en hann var með skor upp á 83 77 og náði ekki niðurskurði. Hann sneri hins vegar keikur aftur til Royal Portrush þar sem hann tvítaði: „Takk allir fyrir stuðninginn! Augusta 1 – Dunbar 0″

Meðal þekktra þátttakenda í móti Áskorendamótaraðarinnar í Alaca de Henares er Javier Ballesteros, 26 ára sonur golfsnillingsins Seve.

Dunbar hefir einnig þegið boð Áskorendamótaraðarinnar um að spila á Montecchia Golf Open í Padúa á Ítalíu vikuna þar á eftir og eins keppir hann á Madeira Islands Open, sem hefst 16. maí n.k. Fyrsta mótið sem hann tekur þátt í á Evrópumótaröðinni sem atvinumaður er 30. maí n.k. þ.e. Nordea Masters í Stokkhólmi, Svíþjóð.