Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 27. 2012 | 14:00

Afmæliskylfingur dagsins: Catherine Lacoste – 27. júní 2012

Afmæliskylfingur dagsins er franski kylfingurinn Catherine Lacoste. Catherine fæddist í París 27. júní 1945 og er því 67 ára í dag.

Cat er dóttir frönsku tennisgoðsagnarinnar Rene Lacoste, sem stofnaði Lacoste tískuvörufyrirtækið. Móðir hennar er Simone Thione de la Chaume, sem vann breska áhugamannamót kvenna árið 1927, sama mót og Cat vann 42 árum síðar.

Cat byrjaði að spila golf í Cantaco Golf Club – sem stofnaður var af foreldrum hennar -í Saint-Jean-de-Luz í Frakklandi og var fljótlega yfirburðakylfingur í unglingastarfinu þar.

Cat varð aldrei atvinnumaður í golfi en sigraði 2 stærstu áhugamannamót í heiminum og þar að auki 1 risamót atvinnukylfinga, US Women´s Open og er enn þann dag í dag eini áhugamaðurinn, sem sigrað hefir það mót.

Catherine tók þátt í: Opna bandaríska kvennamótinu (US Women´s Open), bandaríska áhugamannamóti kvenna (US Women´s Amateur) og breska áhugamannamóti kvenna (British Women´s Amateur). Svo hætti hún öllum golfleik til þess að helga sig fjölskyldunni og starfa í fjölskyldufyrirtækinu. Cat á 4 börn með eiginmanni sínum.

Bróðir hennar er stjórnarformaður Lacoste tískurisans, sem m.a. er einn stærsti stuðningsaðili LET (Ladies European Tour) auk þess að styrkja marga þekkta kylfinga, þ.á.m. þýska kylfinginn Martin Kaymer og franska kylfinginn Grégory Havret.

Eins er fyrirtækið með auglýsingasamninga við nr. 1 í heiminum Yani Tseng, auk fjölmargra annarra sem auglýsa litla græna Lacoste krókódílinn.

Þessi afmælisgrein greinarhöfundar hefir áður birtst á iGolf.is 27. júní 2010, en birtist hér að nokkru breytt. 

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru eftirfarandi:  David Leadbetter (bandarískur golfkennari) 27. júní 1953 (59 ára)

Golf 1 óskar afmæliskylfingnum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is