Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 18. 2012 | 10:00

Adam Scott sigraði á Talisker Open

Það var Adam Scott sem sigraði á Talisker Australian Open og er það eflaust örlítil sárabót eftir að hafa glutrað niður sigurmöguleikanum á The Open s.l. sumar.

Sigurskor Scott, var 17 undir pari, samtals 271 högg (67 70 67 67).  Hann var á 67 höggum lokahringinn meðan helsti keppinautur hans Ian Poulter, sem leiddi fyrir lokahringinn spilaði á sléttu pari, 72 höggum og fékk m.a. 3 slæma skolla á seinni 9, sem gerðu út um leikinn.

Ian Poulter var 4 höggum á eftir Scott í 2. sæti á samtals 275 höggum (67 72 64 72), sem hljóta að vera gríðarleg vonbrigði eftir glæsihringinn upp á 64 högg í gær. Hann sagði m.a. eftir hringinn að hann hefði gert nokkur mistök. Adam (Scott) hefði spilað stöðugt og knúið hann til að gera nokkur kjánaleg mistök, en hann væri verðugur sigurvegari með því hvernig að hann spilaði í dag. Hann sagði jafnframt að vikan hefði verið góð og tilraun gerð til að verja titilinn. Augljóslega væri hann vonsvikinn að geta ekki klætt sig í annan jakka (þ.e. gullna sigurjakka Opna ástralska).

Adam Scott sagði m.a. eftir sigurinn:  „Að hafa att kappi við heimsklassa kylfing (Ian Poulter) og hafa orðið ofan á er mjög fullnægjandi.“  Hann skrýddist síðan „gullna jakka“ sigurvegara Opna ástralska, sem í ár var stutt af Talisker vínframleiðandanum. „Kannski er þetta eina vika ársins þar sem ég hef sett saman 4 stöðuga hringi eins og niðurstaðan sýnir, þannig að ég er virkilega, virkilega ánægður með það sem ég var fær um að gera í þessari viku og sérstaklega í dag. Ég vildi ekki láta annað færi ganga mér úr greipum. Það var gott að komast aftur í þessa aðstöðu (að sigra) og takast að klára. Það er það sem ég þarfnaðist og ég er mjög ánægður.“

Forystumaður fyrstu 2 daganna, Ástralinn Matthew Guyatt lauk keppni T-10 (65 69 75 78)  átti afleita 2 seinni hringi og  Graeme McDowell, sigurvegari Opna bandaríska risamótsins 2010, lauk keppni T-8 á samtals 2 undir pari, 286 höggum (71 77 67 71).

Til þess að sjá stöðuna í heild á Australian Masters eftir 3. dag SMELLIÐ HÉR: 

Heimild: Sky Sports