Adam Scott
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 18. 2014 | 13:00

Adam Scott nr. 1 í fyrsta sinn!

Viðbúið er að Adam Scott nái 1. sæti heimslistans á morgun, en það verður ekki vegna ótrúlegs sigurpútts marga metra frá holu eða æsispennandi keppni… ó nei, Scott tók ekki einu sinni þátt í HP Byron Nelson Championship og ef hann hefði ekki verið að gaufast við að spila í The Players heldur verið sallarólegur heima á Bahamas hjá sinni heittelskuðu eiginkonu Marie, hefði hann orðið nr. 1 fyrir viku.

Scott sjálfum finnst þetta fyrirkomulag skrítið.  „Þetta er undarlegt,“ sagði hann eftir að ljóst var að hann yrði ekki nr. 1 eftir  The Players, en þar hefði hann þurft að verða T-16 en varð í 38. sæti!

„Maður vill ná þessu (að verða nr. 1) með því að  spila vel og ná góðum niðurstöðum en svona er nú bara þetta kerfi,“ sagði Scott, sem þráð hefir að verða nr. 1 á heimslistanum frá því að hann var smápatti.

„Ég er bara að reyna að spila gott golf og reyna að undirbúa mig fyrir næsta stóra mót,“ sagði Scott á Players og bætti við að það að sigra í fleiri risamótum væri mun mikilvægara að hans mati en að verða nr. 1

„Ef ég verð aldrei nr. 1 þegar ég er svona nálægt því þá verð ég vonsvikinn,“ sagði Scott. „Én ég vil líka mun fremur sigra á Opna bandaríska og verða ekki nr. 1 í ár.“

Scott græðir á langri fjarveru Tiger Woods frá mótaþátttöku, en Tiger hefir verið að jafna sig eftir bakuppskurð.

„Þetta er mjög hægt ferli,“ sagði Woods á bloggsíðu sinni vikuna, sem The Players Championship fór fram. „Ég er enn aumur. Ekki frá ferlinu heldur inngripinu.“

Tiger hefir verið nr. 1 í 683 vikur á ferli sínum og hefir ekkert spilað nú í 2 mánuði.

The Players var 4. skiptið sem Scott mistökst að velta Tiger úr 1. sætinu með því að spila í móti.

Fyrsta tækifæri Scott var í Bay Hill, en þar átti Scott 4 högg á næsta keppanda fyrir lokahringinn en varð í 3. sæti.  Scott átti síðan aftur tækifæri á The Masters, þar sem hann var T-3 fyrir lokahringinn. Hann spilaði sig frá sigri með hring upp á 76 högg!

Adam Scott er 17. kylfingurinn til þess að sitja á toppi heimslistans frá því að Þjóðverjinn Bernhard Langer sat þar fyrst árið 1986.

Hann er 4. kylfingurinn til þess að landa toppsætinu án þess að taka þátt í móti og vinna fyrir því, en hinir eru  Lee Westwood , Nick Faldo og  Ian Woosnam.

„Stigakerfið er bara eins og það er,“ sagði Scott. „Þetta er mjög flókið kerfi sem erfitt er að fullkomna,  þar sem inn í spila allar mótaraðir heims.“