Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 20. 2013 | 07:00

Nýju stúlkurnar á LET 2014: Charlotte Thompson (1/31)

Það var 31 stúlka sem komst í gegnum Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut kortið sitt á Evrópumótaröð kvenna, LET (Ladies European Tour).

Mótið fór fram dagana 14.-18. desember 2013 á golfvöllum Al Maaden og Samanah CC í Marrakech, Marokkó.  Leiknir voru 5 hringir  og eftir 4. hringinn var stúlkunum 92 sem upphaflega voru 94, fækkað niður í 60 og þar af hlutu 31 efstu eftir 5. og lokahringinn keppnisrétt á LET fyrir keppnistímabilið 2014.

Það voru 5 stúlkur sem deildu 27. sætinu (voru jafnar í 27.-31. sætinu) og rétt sluppu inn á mótaröðina með skor upp á samtals 2 yfir pari, 362 högg:   Bonita Bredenhann,  Lucy WilliamsVictoria Lovelady , Laura Janson  og Charlotte Thompson.

Í dag verður byrjað á að kynna Charlotte Thompson, sem var í 31. og síðasta sætinu og því e.t.v. heppnust af öllum í Tour School. Hún var í hópi enskra kylfinga sem voru meðal fjölmennustu hópa þeirra þjóða sem komust í gegnum Tour School að þessu sinni, en þær þjóðir sem áttu flesta kylfinga sem komust í gegn voru England (4); Frakkland (4) og Svíþjóð (4).

Charlotte Thompson

Charlotte Thompson

Charlotte Thompson var því ein af 4 enskum kylfingum sem komust í gegnum Tour School; hinar voru Henni Zuel; Hannah Ralph og Lucy Williams.

Heildarskor Charlotte Thompson var 74 70 71 69 78.

Charlotte er fædd 9. ágúst 1992 og er því 21 árs. Hún var í Sandon School (fyrir krakka á aldrinum 11-18 ára) árin 2003-2010. Í ár varð Charlotte í 10. sæti á stigalista breska kvenkylfinga 2013 (Ladies Order of Merit).

Á Englandi er Thompson í Channels golfklúbbnum í Chelmsford, Essex.  Hún var m.a. valin sem 1. varamaður í golflandslið Englands í Opna velska í maí fyrr á árinu.  Liðið varð í 3. sæti og Thompson öðlaðist dýrmæta reynslu. Charlotte varð í 8. sæti í English Women’s Amateur Championship, og í 4. sæti í hinum virta Critchley Salver móti Sunningdale.

Árið 2012 komst Charlotte Thompson í gegnum úrtökumót fyrir Ricoh British Women’s Open, risamótið í kvennagolfinu, hún varð í 2. sæti í English Women’s Stroke Play Championship og var lykilmaður í sigurliði Essex í county finals.

Charlotte Thompson er ung stúlka sem spáð er miklum frama í golfíþróttinni og nú er hún komin á Evrópumótaröð kvenna í 1. tilraun!