Haukur Örn Birgisson, varaforseti GSÍ og frambjóðandi til forsta GSÍ. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2013 | 16:00

Haukur Örn forsetaframbjóðandi GSÍ situr fyrir svörum

Haukur Örn Birgissson, sitjandi varaformaður GSÍ hefir gefið kost á sér í forsetaembætti GSÍ.  Þetta er í fyrsta sinn í áratugi, sem forsetakjör fer fram í GSÍ. Golfþing GSÍ hefst á morgun, föstudaginn 22. nóvember. Golf 1 tók viðtal við Hauk Örn á 16. hæð í Turninum við Smáratorg í Kópavogi, en þar starfar hann sem hæstaréttarlögmaður hjá Íslensku Lögfræðistofunni.  Frá skrifstofunni hans er gríðarlega fallegt útsýni yfir Kópavog, Reykjavík og nágrannabyggðir og eitt af því sem tekið er eftir þegar gengið er inn á skrifstofuna eru fjöldi verðlaunagripa í golfi, sem Haukur Örn hefir unnið í ýmsum golfmótum lögmanna.   Golf 1 átti stutt viðtal við Hauk Örn:

Haukur Örn. Mynd: visir.is

Haukur Örn. Mynd: visir.is

Golf 1: Hversu lengi hefir þú starfað fyrir Golfsamband Íslands og verið í stjórn GSÍ?

Haukur Örn: Ég byrjaði sem almennur starfsmaður GSÍ 23 ára, þ.e. fyrir tæpum 12 árum.   Þegar ég var í laganámi sótti ég um sumarstarf, sem ég fékk og sá fyrst um barna- og unglingagolf og síðan vefsíðu GSÍ, golf.is  Síðan hætti ég, þegar ég var kosinn í stjórn Golfklúbbsins Odds 2003 og var þar til 2006/7.  Síðan var ég kosinn 2005 í stjórn GSÍ og hef setið þar s.l. 8 ár.

Golf 1:   Af hverju ertu að bjóða þig fram nú til forseta GSÍ?

Haukur Örn: Bara af einskærum áhuga. Ég er búinn að vera að starfa lengi innan golfsambandsins og tel mig þekkja hvern krók og kima golfhreyfingarinnar.  Það er mikill áhugi að halda áfram. Ég er mikil félagsstarfs- og keppnisvera.

Hver eru markmið þín með framboði þínu til forseta GSÍ? 

Haukur Örn: Golf er gríðarlega vinsæl  í íþrótt  – 10% landsmanna spila golf, sem er ótrúleg tölfræði. Markmiðið er e.t.v. að gera golfið að enn fjölmennari íþrótt.  Undanfarin ár hefir verið 1-2% fjölgun í golfið – en nú í ár er í fyrsta sinn, fækkun hjá félagsmönnum. Þessa fækkun má e.t.v. að nokkru leyti skýra með leiðinlegri veðráttu í sumar. En það verður að stemma stigu við þessari fækkun.  Það hefir einkum verið brottfall hjá börnum og unglingum.  Það er fækkun í golfíþróttinni allsstaðar í Evrópu.  Menn horfa með öfundaraugum til Íslands og horfa upp til okkar. Ég hef orðið nokkuð var við það í störfum mínum í  stjórn EGA (European Golf Association) en þar hef ég setið undanfarin  3 ár.

Golf 1: Hver eru markmið þín hvað  við kemur Golfsambandinu sjálfu?  

Haukur Örn: Þau eru að menn upplifi það að GSÍ sé þjónustuaðili sinn.  Í samvinnu við golfklúbba landsins hef ég orðið var við að það sé einskonar – Við gegn þeim“ viðhorf –  þetta þarf að laga – GSÍ á að starfa fyrir klúbba og menn eru í sama liði – Golfklúbbar þurfa að fá það á tilfinninguna.

Ég er ekki með nein skammtímamarkmið;  það verður að horfa þetta 5-10 ár fram í tímann – og ekki taka nein stökk.  Það verður að framkvæma – setja sér heildarmarkmið og vanda til verka og það verður aðeins gert í samráði við golfklúbba.

Ég hef leitt stefnumótun GSÍ s.l. 2 ár og á Golfþingi verða lögð fram drög að skjali með stefnu GSÍ til ársins 2020.

Þar eru m.a. meðal stefnumála að endurvekja skólagolf og síðan verður að sinna öllum öðrum skyldum, sem hvíla á GSÍ.

Golf 1: Hvað með Golfklúbba úti á landi – nú finnst mörgum lítill skilningur á málefnum þeirra – og samkoma sem Golfþing ekkert annað en huggulegt veisluboð, þar sem ekkert sé tekið á málum sem hvíli á klúbbunum?

Haukur Örn:  Eitt af því, sem ég hlakka mest til, verði ég kjörinn forseti, er að fá tækifæri til að heimsækja klúbba úti á landi til að kynnast þeim betur.  Því miður hafa þessir klúbbar langt að sækja til að fara á Golfþing og missa því margir af umræðum þar. Ef eir koma ekki til golfsambandsins, þá verður golfsambandið að koma til þeirra. Annars vísa ég til þess sem ég sagði hér á undan þ.e. að menn verði að upplifa GSÍ sem þjónustuaðila sinn.

Golf 1:  Er meðal markmiða þinna að fjölga konum í golfi, þá sérstaklega ungum konum?

Haukur Örn:  Undanfarin 10 ár hefir konum í golfi á Íslandi fjölgað úr 10% í 30%. Það er mjög gott starf, sem hefir átt sér stað.  Það þarf að halda áfram á sömu braut.  Þetta er að miklu leyti starf golfklúbbanna. Ein leiðin til að fjölga kylfingum m.a. konum, er að golfklúbbar bjóði upp á aukinn sveigjanleika í sínu meðlimafyrirkomulagi.   Ákveðnir hópar kjósa e.t.v. að leika á ákveðnum tímum og það væri möguleiki að taka sérstakt tillit til þess að tryggja góða dreifingu álags á vellinum. Sumir geta bara spilað á kvöldin á virkum dögum, á helgum eða morgnum. Það má skoða það að bjóða upp á fleiri tegundir af  félagsgjöldum og bjóða upp á meiri sveigjanleika.

Golf 1: Er eitthvað sem þú myndir vilja taka fram að lokum?

Haukur Örn:  Það er ókostur við golf á Íslandi að mér finnst fólk eða almennir kylfingar ekki meta að verðleikum það starf sem aðstandendur golfklúbba vinna. Í flestum golfklúbbum á Íslandi eru bara 1-2 launaðir starfsmenn. Margir eru að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu og eru að verja miklum tíma sínum til að gera öðrum kleift að spila golf við góðar aðstæður.  Sem dæmi mætti nefna kylfinga í Grindavík, sem eru að reisa skála, eins síns liðs þ.e. bæði að nostra við að byggja bygginguna sjálfa en einnig að afla fjár til þess að geta gert skálann sem bestan úr garði.  Það er virðingavert.  Mér finnst vanta meiri virðingu fyrir sjálfboðastarfi, sem unnið er í golfinu hérlendis.