Klúbbhús GHR. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 2. 2012 | 18:00

Saga Golfklúbbs Hellu í 60 ár – GHR í 60 ár (4. hluti af 12) – tekið saman af Ólafi Stolzenwald

Hér í kvöld skal framhaldið með söguágrip af Golfklúbbi Hellu, sem fagnar 60 ára afmæli sínu í ár, í samantekt Ólafs Stolzenwald:

Helstu síðari endurbætur á vellinum

Ekki eru til nákvæmar heimildir um hvenær ráðist var i aðrar endurbætur en líklega hafa hvítir teigar verið gerðir rétt fyrir Landsmótið 1991 og síðar sextánda og þriðja flötin endurbyggð, sautjánda flöt stækkuð, fimmtánda flöt endurbyggð og síðast fimmta flötin.  Einnig hafa orðið teigabreytingar eins og á átjándu holu og þriðju holu en þær voru styttar og eru gömlu gulu teigarnir þar nú orðnir hvítir.   Einnig var stofnkerfi fyrir vökvun vallarinns sett niður á þessum tíma (miðað við röð vallarsins nú).

Árið 1986 tekur Svavar Friðleifsson við formennsku klúbbsins og gegnir henni til 1997. Guðmundur Magnússon tekur við formannstöðunni og gegnir henni til ársins 2000.

Trjárækt og fuglalíf

 Á vellinum eru nú á annan tug tegunda af trjám og runnum og það má segja Haukur Baldvinsson hafi unnið þrekvirki í því að planta mörg þúsund plöntum í skjólgarða og  byrjar það starf í kringum 1980.  Þessir skjólgarðar hafa gert mikið fyrir annan gróður og slá aðeins á vindinn sem er staðbundinn á Strandarvelli.  Þetta framtak hans smitaði aðra félaga til verka og nú eru nokkur hundruð þúsund tré og plöntur á vellinum.  Einnig hefur nátturulegur víðir tekið vel við sér og fuglalíf aukist verulega á vallarsvæðinu.  Landgræðsla Ríkisins, Rarik og Skógrækt Rangæinga hafa lagt mikið til trjáræktarinnar og gefið klúbbnum þúsundir plantna til gróðursetningar.  Einnig hefur Landsvirkjun verið með skólakrakka á vellinum við gróðursetningu og margir félagar GHR að auki.

Félögum fjölgar og starfsemin eykst

Um 1990 má sjá talsverða fjölgun á félögum. Þá eru félagar um 85 talsins og mótahald orðið líflegt, þrír fastir starfsmenn á vellinum og vísir að því að starfið færi vel af stað.   Vélakostur var orðinn betri á þessum tímapunkti en mikið starf sem félagar lögðu í að gera upp og laga gömul tæki og tól til umhirðunar,  var Örn Hauksson og Jón Ögmundsson þar fremstir í flokki á þessum fyrstu árum.

Landsmót og 1. maí mótið 30 ára

Það má segja að uppbyggingin hafi gengið hratt fyrir sig því Golfkúbbur Hellu – GHR heldur sitt fyrsta Landsmót sem þá var kallað árið 1991. Það má segja að það hafi verið þrekvirki og þrautseigja fyrir lítinn klúbb að halda mótið en um 120 keppendur voru skráðir til leiks.   Landsmót var haldið á vellinum árið 1995 með um 340 keppendur og síðan Íslandsmót í höggleik árið 2002.   Einnig hefur þar verið haldið alþjóðlegt unglingamót.

Á þessum tímamótum hefur 1. maí  mótið verið haldið á vellinum í þrjá áratugi og er því orðið að hefð í íslenskri golfsögu.  Fyrsta mótið 1. maí var kallað 30 ára afmælismót  og hefur það nánast alltaf staðist áætlun síðan. Aðeins hefur þurft að fresta mótinu í nokkur skipti um dag til eða frá og einu sinni var því frestað til 13. maí vegna snjóalaga, en oft hafa verið misjöfn veður og kylfingar látið sig hafa það að spila.   Góð þátttaka hefur ávallt verð í mótinu,  allt að 260 kylfingar farið völlinn á einum degi og fyrstu rástímar oft við sólarupprás.     Áhuginn var svo mikill hér áður að félagar úr Golfklúbbi Akureyrar flugu á Helluflugvöll til að geta tekið þátt í mótinu.  Golfklúbburinn þakkar kylfingum fyrir að vera þessu móti svo trúir sem raun ber vitni og hefur það sannarlega verið þáttur í uppbyggingu klúbbsins.