Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 7. 2013 | 08:00

2500 ára gömul höfuðkúpa unglingsstúlku finnst á Mussleburgh Links

Höfuðkúpa unglingsstúlku sem dó fyrir u.þ.b. 2500 árum fannst á elsta golfvelli í heimi.

Vallarstarfsmenn fundu höfuðkúpuna þriðjudaginn fyrir viku, þ.e. 29. janúar 2013, á Mussleburgh Links, þegar þeir voru að lagfæra eina sandglompuna á 4. braut vallarins.

Upphaflega var talið að höfuðkúpan væri 100 ára gömul, en hún er nú álitin vera frá járntímanum frá því u.þ.b. 5 öldum f.Kr.

Höfuðkúpan var send Dundee háskóla til frekari rannsóknar. Sérfræðingar gera sér vonir um að unnt sé að finna alla beinagrindina. 9-holu Old Course völlurinn á Mussleburgh Links, þar sem höfuðkúpan fannst er í eigu East Lothian Council.

Haft var samband við lögreglu til þess að unnt væri að greina hvort höfuðkúpan væri forn s.s. kom í ljós eða tengd einhverju nýlegra máli.

Mussleburgh Links er skráður í Guinness heimsmetabókina sem elsti golfvöllur heims og er opinberlega talinn vera frá 1672, en þó er María Skotadrottning m.a. talin hafa leikið völlinn 1567.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gömul bein finnast á Mussleburgh Links. Önnur braut vallarins nefnist The Graves vegna þess að talið er að þar hafi hermenn verið grafnir sem féllu í Pinkie Cleugh orustunni milli Skotlands og Englands, 1547.