Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2014 | 16:00

100 bestu golfvellir heims

Golf Digest hefir næstum í 50 ár sett saman allskyns „bestu-vallar eða holu lista í golfi“.

En aldrei áður, fyrr en nú, hafa þeir birt lista yfir 100 bestu golfvelli í heiminum.

Það voru 846 kylfingar í 27 löndum  auk Bandaríkjanna, sem áttu að velja þá golfvelli sem þeir höfðu spilað á og gefa þeim stig frá 1 og upp í 10. Tekið var fram að allir kylfingarnir höfðu ferðast mjög mikið og höfðu því spilað golf víða.

Einungis þeir golfvellir komu til greina í úrtakið „100 bestu golfvellir heims“ sem voru með 20 eða fleiri stig.

(Smá leiðrétting:  Það var panell Golf Digest í Bandaríkjunum, sem árlega velur 100 bestu golfvelli Bandaríkjanna, sem gaf atkvæði sitt sem og svipaðir panelar í þeim 27 löndum, þar sem Golf Digest kemur út (en panell er hópur eða nefnd manna).  Þess utan voru 846 kylfingar, sem Golf Digest þekkir til af langri reynslu og allt eru víðreistir kylfingar sem gáfu atkvæði sín.  Til þess að völlur kæmi yfirleitt til greina á 100 bestu golfvalla listann varð viðkomandi völlur að hafa hlotið 20 atkvæði, atkvæðisbærra aðila (en ekki 20 eða fleiri stig eins og sagði hér að ofan).  Rétt er hins vegar að hver atkvæðisbær aðili gaf völlum stig frá 1 og upp í 10)

Alls voru það golfvellir í 18 löndum sem taldir eru meðal 100 bestu golfvalla heims; þar af voru tæp 40% (eða nákvæmlega 39 vellir) í Bandaríkjunum; sem þeim hjá Golf Digest finnst eðlileg tala miðað við það að 15.619 golfvellir Bandaríkjanna eru u.þ.b. 46% af þeim 34.000 golfvöllum, sem taldir eru vera í heiminum.   Þar af telur Golf Digest 10 velli í Bandaríkjunum vera meðal topp-20 golfvalla í heiminum.

Þó hvergi séu fleiri golfvellir í heiminum en í Bandaríkjunum þá er þó fækkun um 500 frá árinu 2005 í Bandaríkjunum, meðan að í öðrum löndum er gríðarlegur uppgangur í golfvallasmíð. Þannig hefir fjöldi golfvalla í Kína þrefaldast s.l. 10 ár og í framtíðinni munu Kínverjar eflaust eiga stærri hlut  á þessum lista, telja þeir hjá Golf Digest.

Það vita fæstir hversu gríðarlega erfitt er að taka saman lista sem þennan, þar sem það sem þykir gott er svo oft komið undir smekk viðkomandi kylfings.  Því ber ekki að líta á lista sem þennan sem einhvern heilagan sannleik.  Setja má spurningamerki við ýmislegt.  Eru 3 bestu vellir af 34.000 í heiminum virkilega í Bandaríkjunum? … Og eru einnig 10 af 20 bestu golfvöllum í heiminum í Bandaríkjunum? Er sá völlur sem valinn hefir verið besti völlur Evrópu, ár eftir ár, Valderrama einungis þess umkominn að lenda í 49. sæti?  Og jafnvel vellir innan Bandaríkjanna; af hverju er Pine Valley í 1. sæti og t.a.m. TPC Sawgrass í Flórída í 89. sæti?  Hvað með velli í karabíska hafinu, þar er einungis 1 völlur en t.a.m. ekki vellir eins og „Græni Apinn“ á Barbados, Mahogany Run á St. Thomas eyju, „Raffles“ Trump golfvöllurinn á Kanouan? Kannski að fæstir þessara 846 kylfinga hafi spilað þá velli, sem aðra, sem þá verða útundan, þótt þeir séu frábærir í alla staði.  Vellir, í löndum þar sem mikil hefð er fyrir golfi komast ekki einu sinni á listann s.s. vellir í Portúgal, Svíþjóð, Thaílandi og Þýskalandi og svona mætti lengi telja.  Allir geta a.m.k. talið upp 1-2 golfvelli ef ekki fleiri sem þeim finnst eiga heima meðal 100 bestu í heimi, en finnast ekki á listanum.   Hvað er gott, betra og hvað er best og af hverju? Það er smekksatriði.   Golf Digest valdi eina (mjög vandaða)leið til að velja 100 bestu golfvelli heims og hér eru niðurstöðurnar….

Skipting golfvalla, sem þykja bestir í heiminum eftir löndum eru eftirfarandi: 1. sæti Bandaríkin (39 golfvellir, þar af 10 á topp-20); Skotland (14 golfvellir, þar af 4 meðal topp-20); England (11 golfvellir);  Ástralía  (7 golfvellir, þar af 3 á topp-20); Kanada (5 golfvellir); Írland (4 golfvellir); Kína (3 golfvellir)  Suður-Kórea (3 golfvellir); Norður-Írland (2 golfvellir – báðir meðal topp-20); Japan (2 golfvellir – þar af 1 meðal topp-20); Nýja-Sjáland (2 golfvellir); Suður-Afríka (2 golfvellir) Balí (1 golfvöllur); Dóminíska lýðveldið (1 golfvöllur);  Frakkland (1 golfvöllur); Mexíkó (1 golfvöllur); Spánn (1 golfvöllur); Wales (1 golfvöllur).

Hér má síðan sjá einstaka velli sem að mati Golf Digest eru 100 bestu golfvellir í heiminum SMELLIÐ HÉR: