Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 17. 2017 | 08:00

Rory vonast til að taka þátt á flaggskipsmóti Evrópumótaraðarinnar

Rory McIlroy hefur æfingar nú um helgina en hann er allur að skríða saman eftir að rifbeinameiðsl hans leiddu í bakið.

Hann er vongóður um að hann taki þátt í flaggskipsmóti Evrópumótaraðarinnar, BMW PGA Championship, sem hefst í Wentworth í næstu viku.

Nr. 2 á heimslistanum (Rory) fór í röntgenmyndatöku í Belfast s.l. mánudag sem kom vel út.

Rory lét hafa eftir sér á blaðamannafundi að hann væri með fingur krossaða að hann gæti spilað í Wentworth – en þar sigraði hann 2014 – en hann sagði jafnframt munu hlíta ráðum lækna og sérfræðinga og myndi ekki spila ef þeir teldu það vera það besta fyrir hann.

Rory sagðist myndu taka ákvörðun „á síðustu stundu“ hvort hann spili og hann hefir tíma alveg fram á fimmtudag í næstu viku, en mótið hefst 25. maí n.k.

Rory sagði jafnframt „ekki hafa miklar áhyggjur af framtíðardagskrá sinni,“ en á henni er m.a. fyrirhugað að Rory taki þátt í  Jack Nicklaus’ Memorial Tournament, Opna bandaríska og    Travelers Championship og jafnframt Opna írska, sem hefst 6. júlí n.k.

„Þetta snýst allt um að hvílast og halda öllu lausu í kringum meidda svæðið,“ sagði Rory.

Rory – sem er gestgjafi Opna írska 3. árið í röð – tilkynnti líka í gær, þ.e. þriðudaginn 16. maí, að Jon Rahm myndi taka þátt í
Portstewart.

Hinn 22 ára Rahm, sem varð í 2. sæti á eftir Dustin Johnson á heimsmótinu í holukeppni (ens. Dell World Matchplay) hefir verið ein skærasta stjarnan á PGA Tour frá því hann útskrifaðist úr háskóla á síðasta ári.

Sigur og 6 topp-10 árangrar, bara í 13 mótum hafa komið Rahm í 12. sæti heimslistans.

En Rahm er ekki eina stjarna Opna írska. Justin Rose, Lee Westwood og Danny Willett hafa einnig tilkynnt þátttöku sína í mótinu, sem hefst 2 vikum fyrir Opna breska.