Bandaríski kylfingurinn Xander Schauffele eftir sigur á TOUR Championship 2017
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 24. 2017 | 23:59

PGA: Nýliðinn Xander Schauffele sigraði á TOUR Championship

Xander Schauffele lauk nýliðaári sínu á PGA Tour með sigri á lokamóti mótaraðarinnar, TOUR Championship.

Sigurskorið var 12 undir pari, 268 högg (69 66 65 68).

Tíu milljón dollar bónuspottinn vann hann þó ekki – hann fór til Justin Thomas, sem varð í 2. sæti 1 höggi á eftir Schaufele á 11 undir pari, 269 höggum (67 66 70 66).

Schauffele, sem er 23 ára og frá San Diego, var fyrir aðeins 3 mánuðum með áhyggjur um hvort hann myndi halda kortinu sínu á PGA Tour.

Schauffele setti niður 3 feta (1 metra) fuglapútt á lokaholu East Lake, fyrir skor upp á 2 undir pari, 68 höggum, og 1 höggs sigur á Justin Thomas.

Schauffele varð þar með fyrsti nýliðinn á PGA Tour til þess að sigra á TOUR Championship frá því mótið hófst 1987.

Þetta er í fyrsta sinn í 8 ár að tveir leikmenn fagna sigri á East Lake. Tiger Woods vann FedEx Cup og Phil Mickelson TOUR Championship árið 2009.

Segja má að Xander Schauffele hafi verið sá kylfingur sem kom mest á óvart.

Þetta er búin að vera ansi villt vegferð og leið hingað,“ sagði Schauffele, sem útskrifaðist 2011 úr menntaskóla.

Þetta byrjaði allt með því að Schauffele varð T-5 í fyrsta Opna bandaríska risamótinu sem hann tók þátt í, nú í sumar og hann fylgdi þeim glæsta árangri eftir með sigri mánuði síðan á Greenbrier Classic. Hann myndi ekki einu sinni hafa verið á TOUR Championship nema fyrir glæsileik sinn á síðustu 6 holum BMC Championship um síðustu helgi á  Conway Farms, sem kom honum í 30 leikmanna hópinn á East Lake.

En eftir að hann komst á TOUR Championship spilaði hann eins og hann ætti heima þarna með stóru strákunum.

Eftir par-3 11. holuna á lokahring TOUR Championship einpúttaði Schauffele á 4 flötum í röð – öll púttin lengri en 2 metrar – eitt af þeim setti hann niður fyrir fugli, öll hin fyrir pari. Thomas jafnaði við hann með fuglum á 16. og 17. braut en síðan hitti Thomas ekki 567 yarda lokabrautina og gat ekki verið inni á flöt í 2 höggum. Hann missti líka 25 feta fuglapútt sitt aðeins til vinstri við holu.

Schauffele, á hinn bóginn, tókst að bjarga pari á 17. og dúndraði síðan glæsiteighögg sitt upp á 347 yarda beint niður á 18. brautina og átti síðan aðeins eftir stutt aðhögg inn á flöt og eftirleikurinn auðveldur.

Hann lauk sem segir keppni í TOUR Championship á 12 undir pari, 268 höggum (69 66 65 68) og fyrir það fékk hann  $3.75 milljónir – $2 milljónir þar af fyrir að landa 2. sætinu á FedExCup listanum. Sigurinn fleytti Schauffele jafnframt í 32. sæti heimslistans.

Glæsilegt hjá nýliðanum Xander Schauffele!!!

Sjá má lokastöðuna á TOUR Championship með því að SMELLA HÉR: