Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2017 | 15:30

Ólafur Björn nýr framkvæmdastjóri PGA á Íslandi

Ólafur Björn Loftsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri PGA á Íslandi. Hann tekur við starfinu af Andreu Ásgrímsdóttur sem lét af störfum fyrir skömmu.

Ólafur hefur á undanförnum árum starfað í þágu golfhreyfingarinnar og kemur með fjölbreytta innsýn í starfið. Hann er atvinnukylfingur og hefur kynnst vel starfi samtakanna sem félagsmaður síðastliðin fimm ár. Auk þess hefur Ólafur B.S. gráðu í fjármálum og reynslu í viðburðar- og markaðsmálum.

Við í stjórn PGA viljum bjóða Ólaf velkominn til starfa hjá okkur. Við vitum að hann er mjög metnaðargjarn í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur og hefur mikla reynslu á mörgum sviðum sem á tvímælalaust eftir að gera gott starf hjá PGA enn betra“ segir Karl Ómar Karlsson formaður PGA á Íslandi.

Ég er mjög spenntur að taka þátt í uppbyggingu golfíþróttarinnar á Íslandi og hlakka mikið til að starfa náið með því öfluga fólki innan samtakanna. PGA samtökin hafa verið í sókn undanfarin ár með mikilvægum verkefnum og metnaðarfullum golfkennaraskóla. Það er frábært tækifæri að halda þessu góða starfi áfram og aðstoða við að lyfta PGA á Íslandi á enn hærri stall enda spennandi tímar fram undan.“ segir Ólafur en samhliða starfinu, sem er hlutastarf, mun hann leika sem atvinnukylfingur.