Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 12. 2017 | 12:00

Ólafía Þórunn spilar á lokamóti LPGA

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir, atvinnukytlfingur úr GR, hefir nú lokið leik á Blue Bay mótinu á Hainan eyju í Kína.

Við að ná að verða meðal efstu 100 á LPGA stigalistanum er Ólafía Þórunn búinn að tryggja sér áframhaldandi keppnisrétt á sterkustu kvenmótaröð heims, keppnistímabilið 2018.

En Ólafía Þórunn gerði gott betur. Hún varð í 80. sæti stigalistans og það er verðlaunað með að hún fær þátttökurétt í fleiri mótum LPGA, m.a. risamótum og nú lokamóti LPGA 2017, sem er ótrúlegt afrek.

Leiðréttist hér með það sem áður var ritað á Golf 1 að Blue Bay mótið væri síðasta LPGA mót Ólafíu í ár – við fáum enn að fylgjast með þessari glæsilegu golfdrottningu okkar á sjálfu lokamóti LPGA mótaraðarinnar.

Lokamót LPGA nefnist CME Group Tour Championship og fer það fram dagana 16.-19. nóvember n.k. í Naples, Flórida og er verðlaunaféð eitt það hæsta á LPGA eða $2,500,000.

Vonandi að Ólafía standi sig vel þar og hljóti góðan jólatékka fyrir árangur sinn þar!!! 🙂

Með því að verða í 80. sæti, brýtur Ólafía enn blað í íslenskri golfsögu, hún verður fyrsti íslenski kylfingurinn til að spila á lokamóti bestu kvenmótaraðar heims.

Að ná 80. sæti er stórkostlegur árangur, en til samanburðar má t.d. nefna að við það að Ólafía komst inn á listann datt út af listanum Aditi Ashok sem vann Abu Dabi mótið í síðustu viku og hefur alls unnið 3 LET mót. Einning má nefna að Mel Reid, sem spilaði á Solheim Cup komst ekki inn á listann, né Beth Allen sem var nr. 1 á Evróputúrnum í fyrra. Þessi samanburður sýnir hvað þetta er mikið afrek.