Ragnheiður Jónsdóttir | október. 11. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Aaron Wise (7/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour, sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað verður á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hljóta þannig kortið sitt í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 verður byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Síðan verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar.

Sá sem varð í 19. sæti peningalistans með samtals verðlaunafé upp á samtals $212,572 (Verðlaunafé í Web.com Finals:$12,650; Verðlaunafé á reglul. tímabili:$199,922) var bandaríski kylfingurinn Aaron Wise .

Aaron Kyle Wise fæddist 21. júní 1996 í Höfðaborg, Suður-Afríku og er því 21 árs. Hann fluttist með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þegar hann var 3 ára.  Hann er 1,85 m og 79 kg.

Wise er bandarískur ríkisborgari, býr í Lake Elsinore, Kaliforníu og lék með Oregon háskóla í bandaríska háskólagolfinu. Hann lauk fyrrihluta prófi (pre-law) í lögfræði við Oregon háskóla.

Uppáhaldstómstundir Wise er allt sem hægt er að gera utan dyra með vinum sínum.

Wise hefir spilað á Mackenzie Tour  í Kanada og sigraði í 1 móti á þeirri mótaröð þ.e. Syncrude Oil Country Championship presented by AECON, árið 2016.

Árið 2017 spilaði Wise á Web.com Tour og einnig á þeirri mótaröð vann hann mót í ár þ.e. Air Capital Classic Supporting Wichita’s Youth, sem lagði grunninn að því að hann er nú kominn á bestu karlgolfmótaröð í heimi, bandaríska PGA Tour.