Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 21. 2017 | 07:00

Catriona Matthew vekur athygli á mismunun í verðlaunafé kynjanna og milli mótaraða

Á tyllidögum er fjallað um að fjölga þurfi konum í golfi og gera golfið meira aðlaðandi fyrir þær.

Af hverju er þátttaka kvenna í mótum t.a.m. alltaf svona lítil? Eitt af því sem hefir verið bent á er að þær séu meira fyrir samvinnu og líki ekki að keppa.  Það er eins og hvert annað rugl; þetta er einstaklingsbundið, eins og hvað annað.

Hin 47 ára Catriona Matthew hefir stundað keppnisgolf mikinn meirihluta ævinnar og veit svona sitthvað þegar kemur að kvennagolfi.

Hún er e.t.v. einn vanmetnasti kylfingur Skotlands, ef ekki Bretlandseyja.  Sigur hennar á Women’s British Open 2009, 11 vikum eftir að hún fæddi dóttur sína er ein af eftirminnilegustu golfsögum golfsögunnar.

Hún dró upp fremur dökka mynd af lífinu á Evrópumótaröð kvenna í viðtali að því tilefni af því að ákveðið var að Solheim Cup 2019 fari fram í heimalandi hennar, Gleneagles í Skotlandi.

Hún var m.a. spurð að því hvort það að LET keppnistímabilið hæfist snemma væri nóg fyrir keppendur, sem ekki væru að vinna sér inn mikið vinningsfé.

„Nei,“ sagði Catriona „í sannleika sagt, ef þú ert að byrja á LET þá verður þú að vera í hlutastarfi til þess að ná endum saman.“

Það lagast eftir því sem líður á árið. Efnahagurinn í Evrópu er ekki svo frábær með öllu sem gengur á þar. Það er erfitt að komast inn á mót. Margir af bestu kylfingunum fara til Bandaríkjanna. Það er synd, en þetta er bara svo erfitt.“

Það að þurfa að vinna aukastarf jafnframt því að spila á atvinnumótaröð er alls óþekkt meðal atvinnumanna í knattspyrnu eða karlkylfinga sem spila á Evróputúrnum. Og það er þannig sem það ætti að vera því golfíþróttin er nógu krefjandi án þess að þurfa að vinna með 40 tíma vinnuviku. Og þar að auki er LET toppurinn á öllu kvennagolfi í Evrópu; það er ekki uppeldisstöð fyrir þær sem eru að byrja.

Og ef litið er á dagskrá LET þá sést að Catriona hefir ýmislegt fyrir sér. Þrjú LET mót hafa farið fram á árinu á stöðum, sem ekki er auðvelt að ferðast til né er það ódýrt; en mótin hafa farið fram í Ástralíu, Kína og Marokkó.

Peningalisti LET nær aðeins í 30. sætið áður en heildarvinningsfé fer undir  €50,000  (u.þ.b. undir 6 milljónir ísl. kr.).

Fyrir að vera í 100. sæti á peningalista Evróputúrsins fékk Svíinn Pelle Edberg €275,000  meðan kvenkylfingurinn í 100. sæti á LET landa hans, Linda Henriksson fékk aðeins €9,472.

Eftir Estrella Damm Mediterranean Ladies Open mótið, sem fram fer rétt hjá Barcelona nú um helgina og Valdís Þóra „okkar“ Jónsdóttir, er að standa sig svo vel á; er ekkert á dagskrá LET fyrr en um miðjan júní þegar  Turkish Ladies Open fer fram; mót í suður-Evrópu. Síðan tekur við fremur stressuð dagskrá með hinu €250,000 móti í Tékklandi, Scottish Open í Skotlandi og European Ladies Masters áður en Solheim Cup 2017 hefst í Iowa. Síðan lýkur keppnistímabilinu með mótum í Kína,Abu Dhabi, Indlandi, Qatar, Japan og Dubai.

Þátttaka í mótunum er gríðarlega dýr og fjárfrek en sigurlaunin lág. Því fara margar af þeim bestu til Bandaríkjanna, kylfingar á borð við Catrionu sjálfa,Charley Hull og Melissu Reid, svo dæmi séu tekin.

Á Texas Shootout á LPGA er verðlaunafé $1.3milljónir – sem gerir það að verkum að óhjákvæmilegt er á einhverjum punkti að skipta um landslag og spila í Bandaríkjunum.

Melissa Reid, sem komst í gegnum Q-school á sama tíma og Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir sagði m.a um golfleik sinn í Bandarikjunum: „Mér finnst eins og ég hafi aftur fengið lyst á leiknum. Ég hef sagt það áður en það var bara að duga eða drepast fyrir mig á Q-school,“ en þar átti hún m.a. við að ekki hefði verið ákjósanlegt fyrir hana að þurfa að spila áfram í Evrópu.

Catriona Matthew verður aðstoðarfyrirliði evrópska liðsins í Solheim Cup í Iowa í ágúst í sumar.  Hún segir að í síðustu 5-6 Solheim Cup keppnum hafi meirihluti allra leikmanna Evrópu spilað í Bandaríkjunum. „Kannski voru nokkrar þar á meðal sem aðeins spiluðu á LET (en þær voru fáar).“

En í lok dags erum við evrópskar. Nú, ég hef spilað allan feril minn á LPGA en ég er mjög skosk í hjarta mér. Ég held að maður viti alltaf að því hvar rætur manns eru. Margar þeirra evrópska búa enn í Evrópu.“

Það sem við blasir í kvennagolfi í Evrópu er krefjandi. Fáum konum hugnast að vera í íþrótt sem er svona karllæg eins og golfið – þar sem gert er lítið úr kvenkylfingum með því að hafa verðlaunafé jafnvel á stærstu mótaröðunum lægra en hjá sambærilegum karlmótaröðum. Eins að enn eru til skilti þar sem konur og hundar eru ekki velkomin á golfvelli – en ennþá eru golfvellir í Evrópu sem meina kvenkylfingum félagsaðild, sem er ótrúlega aftur úr rassgati og afturhaldssamt á 21. öld!!!